154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eðli málsins samkvæmt er kannski ekki hægt annað en að stikla á stóru í andsvari við hæstv. ráðherra um þann víðfeðma og mikilvæga málaflokk sem heyrir undir innviðaráðuneytið. Ég ætla að halda mig við samgöngumálin og spyrja hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur út í þrennt aðallega. Eins og við öll vitum er rúmt ár liðið frá því að uppfærsla samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hófst og mig langar að inna ráðherrann eftir því hvort ekki fari að bóla á niðurstöðum þeirrar uppfærslu. Það hefur lengi verið beðið eftir henni og hún skiptir mjög miklu máli fyrir samgöngur og samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra — það kann að vera að þetta komi fram í fjármálaáætluninni og að sú sem hér stendur hafi ekki fundið það, en ég spyr samt: Tilraunaverkefni frá 2012, um eflingu almenningssamgangna, kvað m.a. á um 900 millj. kr. framlag til strætó. Það hefur ekki hækkað samkvæmt verðlagi og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til eða með hvaða hætti ríkið ætli að koma inn í rekstur almenningssamgangna þannig að einhverju máli skipti. Það er eins og allir vita líka hluti af loftslagsaðgerðum og bættum lífsgæðum fólks.

Í þriðja lagi er það hugmyndin um að byggja flugvöll í Hvassahrauni sem mér skilst að sé enn á borði ráðuneytisins og til athugunar. Mér leikur forvitni á að vita hvar það mál stendur. Eftir því sem ég best veit er samstarfshópur starfandi sem var settur á fót árið 2019 og það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það starf hér.

Rétt í lokin vil ég fagna áherslum ráðherrans á kynjaða nálgun á málaflokkinn.